Hvað er vinnsluminni?

Eins og nafnið gefur til kynna, þá ræður stærð vinnsluminnis því hversu mikið „minni“ tölvan hefur til að vinna með. Ímyndum okkur að harði diskurinn í tölvunni sé fataskápur, fullur af forritum, ritgerðum og myndum. Í hvert skipti sem þú vilt fá eitthvað úr skápnum, þarf tölvan að fara og ná í það fyrir þig. Ekkert ósvipað og við förum í fataskápinn til að ná okkur í buxur. Í þessari myndlíkingu er vinnsluminnið stóllinn í herberginu sem við geymum fötin okkar á. Þú veist, þau sem við ætlum að nota aftur eða nennum ekki að ganga frá alveg strax.

Image for Hvað er vinnsluminni?
Image for

Því stærra sem vinnsluminnið er, því stærri er stóllinn og meira af hlutum er hægt að geyma við höndina. Í stuttu máli þýðir stærra vinnsluminni að tölvan getur geymt meira í skyndiminni og þannig unnið hraðar og í fleiri hlutum í einu. Ef þú ætlar að vinna í þungri vinnslu eða í mörgu í einu, borgar sig því að taka stærra vinnsluminni svo tölvan þurfi ekki að fara margar tímafrekar ferðir í skápinn.

Til að setja tölur í samhengi, þá er algengt að dýrir snjallsímar séu í dag með 2-6GB í vinnsluminni. Tölvur eru oft með 8GB. Sérstaklega skrifstofuvélar sem eyða mestri sinni ævi í forritum eins og Outlook og Excel. Mjög algengt er þó að 16GB séu valin í þeim tilfellum þar sem kröfurnar eru meiri – vinna á í mörgum forritum í einu og jafnvel í myndvinnslu og tölvuleikjum. Í vélum sem eru hannaðar fyrir enn stífari vinnu er vinnsluminnið svo oftast enn meira. Jafnvel heilt terabæt!

Image for

__________________________________________________________________________________________