Er allt pínulítið á nýja skjánum?

Er allt pínulítið á nýja skjánum?

6.2.2018

Það er óþarfi að vera með nefið ofan í nýja háskerpuskjánum.  

 

Við munum öll (já eða flest) eftir stökkinu úr túbusjónvarpi yfir í flatskjá, frá RÚV í RÚV HD, Scart tengi yfir í HDMI. Þessi þróun er auðvitað enn að eiga sér stað en hvað er að gerast á bakvið tjöldin? Af hverju er myndin betri í nýja 65“ 4K sjónvarpinu heldur en hún var í gömlu góðu túbunni? Í stuttu og mjög einföldu máli er það vegna punkta (e. pixels). Því fleiri punktar, því skarpari mynd.

 

Ímyndum okkur að hvert spjald á þessari mynd sé punktur á skjá. Með því að fjölga spjöldunum á bekknum, er hægt að sýna flóknari myndir. 

 

 

Gamla sjónvarpstæknin er tæknilega séð ekki eins og sú nýja en það er ekki fjarri lagi að tala um að túban hafi verið í um 480 til 576 punktum. Þaðan uppfærðu flestir sig í háskerpu (HD), eða 720 punkta. Þarna fannst mörgum framtíðin vera komin en hún var bara rétt mætt í forstofuna og að taka af sér skóna. Menn voru kannski aðeins of fljótir á sér að nefna staðalinn „háskerpu“ og í dag þykir 720 punktar voða lítil skerpa. Hvað þá háskerpa.

 

Þróunin hefur verið ansi hröð síðan og má segja að flestir nýir tölvuskjáir séu allavega 1080 punktar (FHD). Þaðan liggur leiðin svo í staðla eins og QHD, UHD, 4K og núna síðast 8K. Alltaf fjölgar punktunum og skerpan eykst eftir því.

 

En hvað þýðir þetta fyrir þá sem eru að skipta yfir í tölvur og skjái með hærri upplausn? Fjölgun punkta þýðir að hægt er að sýna sömu myndina á mikið minni fleti. Myndin verður skarpari og um leið er hægt að koma meira af efni fyrir á skjá af sömu stærð. Þarna lenda sumir í vandræðum því tölvur með litla skjái sýna mikið efni kannski pínulítið því punktarnir eru hreinlega orðnir svo margir á litlum fleti. Myndin er skörp og góð, en það er kannski ekki þægilegt að vinna með tölvuna alveg í andlitinu. Að sama skapi eru sum forrit ekki búin að aðlaga sig að aukinni skerpu og geta orðið óskýr að sjá.

 

Auðvitað er til lausn á þessu í Windows 10. Með því að hægrismella á skjáborðið er hægt að fara í skjástillingar (Display settings)

 

 

 og skala skjáinn til og frá (Scale and layout).

 

 

Eftirfarandi dæmi er tekið á 13,3“ Dell XPS með QHD skjá. Í upprunalegri stillingu er myndin frekar lítil og vefsíður eru illlæsilegar.

 

 

Um leið og við erum búin að færa skölunina í 200% er allt farið að líta mikið betur út.

 

 

Það þarf auðvitað ekki að stoppa þar og í raun má stækka myndina upp í það sem hentar hverjum og einum. Windows mælir með réttri skölun fyrir stærðina af skjánum og er sú stækkun merkt með „recommended“.

 

 

 

Ef einhver forrit láta ekki segja sér fyrir verkum og halda áfram að vera lítil eða óskýr, er til lausn á því. Fljótlegast er að hægra smella á merkið fyrir forritið, fara í „Compatability“ og „Scaling performed by“ undir Settings. Ef hakað er við „System (enhanced)“ tekur Windows fram fyrir hendurnar á forritinu og skalar það að réttri upplausn.

 

 

Það er því óþarfi að láta sér bregða þó hlutirnir séu litlir eða óskýrir fyrst þegar nýja tölvan eða skjárinn er tekin í notkun. Lausnin er örfáa smelli í burtu.