Og sigurvegarinn er… hamborgari?

Við erum búin að fara hratt yfir mikið af því áhugaverðasta sem var til sýnis á CES 2019, en það sem hefur staðið upp úr í efnisöflun okkar er að ein vara er að vinna flest verðlaunin. Það er ekki risastórt sjónvarp eða vélmenni sem knúsar þig. Heldur hamborgari. Þetta er auðvitað enginn venjulegur hamborgari, enda myndi venjulegur Big Mac varla stela senunni á stærstu tæknisýningu í heimi.

Impossible Burger 2.0 er ræktaður á rannsóknarstofu úr sojaprótínum og er eins og.. ja, hamborgari. Af hverju er það merkilegt? Jú, því í fyrsta sinn hefur tekist að gera grænmetisborgara sem getur raunverulega leyst kjöt af hólmi. Kostnaður, umhverfisáhrif og fleira er talið munu hafa mikil áhrif á ræktun dýra til manneldis í framtíðinni og sér fyrirtækið Impossible Foods fyrir sér að hægt sé að vega á móti því með ræktun á „kjöti“ á rannsóknarstofum. Framtíðin er komin og bragðast víst bara prýðilega!

Mynd: AP

Image for Og sigurvegarinn er… hamborgari?

DELL frumsýnir Latitude 7400 2-in-1

Fyrirtækjatölvumarkaðurinn er mjög harður og það þekkja okkar menn hjá DELL vel. Vélarnar verða að vera öflugar, meðfærilegar og umfram allt traustar. Nýjasti meðlimurinn í fyrirtækjalínu DELL leit dagsins ljós á CES 2019 og hún gefur skýra mynd um hvert DELL ætlar sér.

Latitude 7400 2-in-1 er stórt skref frá því sem við eigum að venjast í hefðbundnum fyrirtækjatölvum. Frekar en að nota hefðbundið plast, er 7400 smíðuð úr demantaskornu áli og í staðin fyrir að vera hefðbundin fartölva, er hún 2-in-1 fartölva og spjaldtölva.

Image for DELL frumsýnir Latitude 7400 2-in-1

Merkilegast er þó kannski að vélin gerir út af við hefðbundna innskráningu eins og við þekkjum hana. 7400 skynjar þegar notandinn nálgast og vekur kerfið sjálfkrafa. Innbyggðir skynjarar og Windows Hello aflæsa svo tölvunni með því einu að horfa á notandann. Að sama skapi læsir vélin sér sjálfkrafa þegar hún skynjar að notandinn er farinn. Við sem gleymum alltaf að læsa tölvunum okkar höfum því fljótlega enga afsökun lengur.

Mynd: DELL

Sjónvörp í öllum stærðum og gerðum

Það væri auðvitað ekki CES ef það væri ekki haugur af sjónvörpum – hvert öðru stærra og með tækni sem hvetur okkur til að endurnýja jálkinn heima í stofu við fyrsta tækifæri. Aðal hitamálið var 8K staðallinn í upplausn. 8K skilar ótrúlega skarpri mynd en verra er að svo til ekkert efni er til í svo háum gæðum. Það liggur því kannski ekkert voðalega á að skipta 4K tækinu út alveg strax.

Á meðan LG gerði mikið mál úr sjónvörpum sem bogna og rúllast upp, einbeitt Samsung sér að því að eiga lokaorðið í stærð skjáa. Galdurinn er ný tækni sem þeir kalla Micro LED – sem gerir þeim kleift að raða einingum saman í ótrúlegar skjástærðir.

Á Samsung básnum á CES má meðal annars sjá 219 tommu tæki sem samansett er með þessari tækni. Okkar menn frá Kóreu gera sér samt grein fyrir að fæstir komi kannski 219 tommum fyrir í stofuna hjá sér og kynntu því um leið hógvært 75 tommu tæki sem er nær því sem neytendur eru vanir. Flestir myndu þó kannski kalla það stórt. Jafnvel.. mjög stórt.

Mynd: Digital Trends

Image for Sjónvörp í öllum stærðum og gerðum

Vélræn ást við fyrstu sýn

Við erum búin að sjá ótrúlegt magn af vélmennum á CES 2019. Gerð til að þjónusta, aðstoða og jafnvel hjúkra. En jafnast nokkuð á við vélmenni sem er hannað til að vera elskað? Lovot er japanskt vélmenni sem minnir einna helst á Furby, nema með þrjú hjól og selafit. Já, og kostar um 600 þúsund krónur.

Mynd: Tomohiro Ohsumi

Image for Vélræn ást við fyrstu sýn

"Alexa - sturtaðu"

Við getum loksins hætt að láta okkur leiðast á salerninu því klósettskál framtíðarinnar verður opin fyrir góðu spjalli. Á CES er ekki bara búið að kynna eitt, heldur nokkur snjöll klósett sem lýsa þér veginn að hásætinu, hita upp setuna, þrífa sig (og þig) sjálfkrafa og jú, tala við þig. Numi 2.0 frá Kohler er nefnilega með kraftmikla hátalara, diskóljós sem blikka í takt við tónlistina og síðast en ekki síst: stuðning við Amazon Alexu. Þurftirðu nauðsynlega að vita hvernig veðurspáin er á meðan þú ert „upptekin/n“? Numi 2.0 reddar því.

Mynd: Digital Trends

Image for

OLED skjáir væntanlegir í DELL búnað

OLED skjáir eru heitasta tískan í sjónvörpum og farsímum, en í tölvubúnaði hefur þessi innleiðing ekki átt sér stað nema að mjög takmörkuðu leiti. DELL vonast til að hrinda OLED byltingunni af stað með því að bjóða upp á þessa skjátækni í 15“ fartölvum og 55“ leikjaskjá. Organic Light-Emitting Diode (OLED) skjáir nota aðra tækni en hefðbundnir skjáir sem skilar betri litum og dýpri mynd.

Í grunninn er hver og einn punktur í skjánum sjálfstæð eining, sem gefur mikla möguleika í meðhöndlun og myndgæðum. OLED er væntanlegt seinna á árinu í XPS 15 til að byrja með og væntanlegt í öðrum týpum í nánustu framtíð.

Mynd: Digital Trends

Image for OLED skjáir væntanlegir í DELL búnað

Það er eitthvað bogið við þennan síma

Fyrsti síminn með samanbrjótanlegum skjá hefur litið dagsins ljós. Von hefur verið á græju sem þessari í þónokkurn tíma en það sem færri áttu von á var að nokkuð óþekkt kínverskt fyrirtæki yrði á undan risum eins og Samsung og LG. Græjan sem um ræðir heitir FlexPai og kemur frá fyrirtækinu Royole (nei við höfum ekki heyrt um það heldur). Í grunninn er hér um að ræða 8“ spjaldtölvu sem brotnar saman og verður að meðfærilegri símtæki. FlexPai verður einungis í boði í Kína í desember en þó verður hægt að panta sérstakt þróunareintak til annarra landa fyrir á annað hundrað þúsund.

Mynd: CNET

Image for Það er eitthvað bogið við þennan síma

Var DELL að fullkomna XPS 13?

Fartölvan sem af mörgum hefur verið kölluð ein sú besta í heimi var kynnt í nýrri útgáfu á CES 2019. XPS 13 hefur lengi verið staðallinn í svokölluðum Ultrabook flokki og með 2019 módelinu hefur DELL gert sig líklega til að halda þeim titli. Nýja vélin er með Whiskey Lake Intel örgjörva, nýjum hjörum sem hjálpa til við að opna vélina og hún fæst í nýjum lit.

Það sem eflaust stendur þó upp úr hjá aðdáendum XPS línunnar er að vefmyndavélin hefur verið færð á toppinn á skjánum. Verkfræðingar DELL voru tvö ár að hanna nýju vélina, sem er sú allra minnsta HD vefmyndavél sem hefur verið sett í fartölvu. XPS 13 2019 er væntanleg seinna á árinu og við gætum ekki verið spenntari!

Image for Var DELL að fullkomna XPS 13?

Alienware Area 51-m er borðtölva í fartölvu

Alienware létu ekki duga að kynna eina þynnstu leikjafartölvu í heimi á CES 2019, heldur einnig þá þykkustu. Það er þó góð ástæða fyrir að Area 51-m er svolítill hlunkur því hér er á ferðinni öflugasta leikjafartölva í heimi. Í vélinni má finna örgjörva og aðra tækni sem áður hefur einungis komist fyrir í borðvélar og er aflið eftir því. Að auki er vélin byggð á þann hátt að auðvelt er að skipta út íhlutum og uppfæra eftir þörfum. Sjáðu okkar menn hjá Alineware kynna græjuna til leiks í útsendingu DELL frá CES.

Image for Alienware Area 51-m er borðtölva í fartölvu

Vélfjölmenni hjá Samsung

Samsung eyddi töluverði púðri á sinni kynningu í að segja okkur að öll heimilistæki framtíðarinnar yrðu snjöll, með snertiskjá og töluðu við hvort annað. Það sem stóð kannski upp úr, var sú framtíð sem þeir teiknuðu upp – full af sætum vélmennum sem eiga að létta okkur lífið. Ein týpa þefar uppi vont loft og hreinsar það, ein hjálpar til við innkaupin í verslunum, önnur hjálpar þeim sem eiga erfitt með gang og loks er ein sem sinnir hlutverki hjúkrunarfræðings.

Samsung sýndi síðastnefnda vélmennið á sviði og þó þessi krúttbolti hafi mælt blóðþrýstingin á kynninum, verður að teljast ólíklegt að hjúkrunarfræðingar heimsins þurfi að hafa áhyggjur af störfum sínum á næstunni.Að auki sýndi Samsung hógvært og lítið 98“ 8K sjónvarp, nýjar lausnir fyrir bílaiðnaðinn og fleira og fleira.

Mynd: Wired

Image for Vélfjölmenni hjá Samsung

Sony kynnir ferðahátalara með glasahöldurum. Loksins!

Rétt tímalega fyrir sumarið kynnir Sony rétta hátalarann fyrir útileguna. Sony GTK-PG10 er ekki bara með skrýtið nafn, heldur nokkra kosti sem hann að frábærum félaga í ferðalagið. Hann er með 13 klukkutíma rafhlöðuendingu, sérstakt „out door mode“ sem lætur tónlistina hljóma betur útidyra og síðast en ekki síst: glasahaldara fyrir fjögur glös.

Hann mun eflaust nýtast vel undir sterkari drykki þegar innbyggði karíókí fídusinn verður notaður í útipartýinu.

Image for Sony kynnir ferðahátalara með glasahöldurum. Loksins!

Brauðkaupin gerð einfaldari

Það eru ekki bara upprúllanleg sjónvörp og magnaðar fartölvur á CES. Fyrirtækið Wilkinson Baking Company kom gestum sýningarinnar á óvart með því að sýna BreadBot. Já, vélmenni sem bakar brauð. Með um 100 skynjurum getur BreadBot bakað um 10 gómsæta brauðhleifa á klukkustund. Eitthvað sem gæti komið Gylfa Þór og Alexöndru mjög vel í komandi brauðkaupum.

Mynd: Fréttablaðið

Image for Brauðkaupin gerð einfaldari

LG færir sig í bruggbransann

Bjórþyrstar heimasætur geta tekið gleði sína því LG HomeBrew er á leiðinni á markað. Þessi einfalda græja gerir notandanum kleift að brugga bjór með því einu að setja inn nokkur hylki, ýta á takka og bamm! bíða í tvær vikur því bjór þarf tíma til að gerjast. Hægt verður að fá hylkin (sem minna helst á kaffihylki) í nokkrum tegundum bjórs og getur notandinn bruggað allt frá IPA til pilsners heima í eldhúsi.

Hægt verður að fylgjast með framgangi bruggunarinnar með sérstöku appi og þegar allt er klárt skilar vélin um 10 stórum bjórum. Þægilegra gæti það ekki verið – vertu bara viss um að setja græjuna af stað tveimur vikum áður en þig langar í bjór.

Mynd: AP

Image for LG færir sig í bruggbransann

Gengur bíll án hjóla?

Á CES 2018 fengum við að sjá fljúgandi leigubíla en í ár kynnir Hyundai hugmyndir um bíla sem eru kannski eilítið nær raunveruleikanum. Bílar sem ekki fljúga á áfangastað, heldur rölta frekar. Hyundai sér fyrir sér að Elevate bíllinn verði með hefðbundin dekk, en þegar syrtir í álinn muni fjórar lappir hífa bílinn upp og bera hann yfir hindranir. Hyundai Elevate er enn á hugmyndastigi en það verður að teljast líklegt að bíll sem þessi „gangi“ vel í vetrarfærðinni á Íslandi ekki satt?

Image for Gengur bíll án hjóla?

LG rúllar upp samkeppninni

Á CES 2018 fengum við að sjá óvenjulegt sjónvarp frá LG á hugmyndastigi. Það var nefnilega hægt að rúlla því niður og láta það þannig í raun hverfa þegar notandinn vill ekki að horfa á auðan svartan ramma. Nú er svo komið að þessi klikkaða hugmynd er orðin að raunveruleika og á CES í ár sýnir LG lokaútgáfuna af OLED TV R. Þetta magnaða sjónvarpstæki er með OLED skjá sem er hægt að beygja og þannig rúlla upp í fótinn svo ekkert stendur eftir nema öflugur hátalari.

Nú er bara að byrja að spara, selja börnin til vísindatilrauna og veðsetja húsið því LG OLED TV R kemur á markað seinna á árinu.

Mynd: The Verge

Image for LG rúllar upp samkeppninni

Ný Alienware m17 hlýtur verðlaun á CES

Seinna í dag ætlar Dell að kynna aragrúa af nýjum vörum, en í gær tóku þeir forskot á sæluna og kynntu nýja Alienware fartölvu, sem nú þegar er búin að vinna frumkvöðlaverðlaun CES. Alienware m17 er stórglæsileg 17“ leikjavél sem er hönnuð til að vera létt og meðfærilega þrátt fyrir mikla skjástærð og gríðarlegt afl. Vélin er hvorki meira né minna en 40% léttari en fyrirrennarinn og státar af GeForce RTX 2080 Max-Q og allt að Intel i9 örgjörva. Það ætti að vera hægt að leika sér almennilega með þessari græju.

Image for Ný Alienware m17 hlýtur verðlaun á CES

Er snjall viður framtíðin?

Við erum búin að sjá snjöll úr, snjalla hátalara og núna loksins: snjallan kubb af timbri. Japanska fyrirtækið Mui Lab sýndi þennan sérstaka skjá á CES og er honum ætlað að stjórna öllum helstu snjalltækjum heimilisins á einfaldan og stílhreinan hátt. Mui kubburinn sýnir m.a veðrið, gefur möguleikann á að stjórna tónlistinni, stilla ljósin og opna dyr með snjalldyrabjöllu. Græjan er ekki komin út en von er á henni á markað á næstu vikum á litla 1000 dollara. Dýr planki það.

Image for Er snjall viður framtíðin?

Sætur andardráttur sparar stungurnar

Fyrirtækið AerNos kynnti græju á CES sem gæti létt sykursjúkum lífið til muna. AerBetics er lítið og meðfærilegt tæki sem mælir blóðsykur með því einu að andað sé á það. Tækið mælir sérstakar lofttegundir í andardrættinum sem segir til um ástandið og notandinn getur fylgst með í sérstöku appi. Sykursjúkir geta því hlakkað til framtíðar þar sem mælingar með nál heyra sögunni til.

Mynd: Wired

Image for Sætur andardráttur sparar stungurnar